Saga hestafimleika
Erlendis nær saga hestafimleika aftur til forna og lengst af voru þeir aðallega notaðir til þjálfunar hermanna.
Á miðöldum voru þeir stundaðir til skemmtunar í konungshöllum.
Sem nútíma hestaíþrótt hafa hestafimleikar verið þekktir í Þýskalandi síðan 1950.
Í dag er þessi íþróttagrein þekkt um allan heim og keppt er í henni allt upp í heimsmeistaramót.
Hestafimleikar, eitthvað fyrir alla
Í hestafimleikum er hesturinn miðpunktur æfinganna – traustur vinur og æfingafélagi. Hann fer á hringtaumi (hann labbar í hringi) á meðan á æfingu stendur. Þjálfari stjórnar hestinum, og gerir það æfingarnar aðgengilegar fyrir byrjendur. Þannig geta iðkendur einbeitt sér að því að læra á hreyfingar hestsins, bæta jafnvægi og þróa eigin tilfinningu, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvert hesturinn fer eða hvað hann er að gera.
Hestafimleikar eru fjölbreyttir og styrkja iðkendur bæði líkamlega og andlega. Þeir bæta meðal annars jafnvægi, þol, styrk, teygjanleika, liðleika og félagshæfni. Mikilvægir þættir eru traust, samvinna og virðing, sem styrkja félagslega hæfni og hjálpa til við að þjálfa tillitsemi.
Samveran með hestinum og öðrum iðkendum er félagslega uppbyggjandi og skemmtileg tómstundastarfsemi. Óháð aldri og/eða þekkingu geta iðkendur eldri en 4 ára tekið þátt og æft sig í öruggu umhverfi. Hestafimleikar gefa tækifæri til að upplifa sjálfan sig og umhverfi sitt á nýjan hátt, með áherslu á líkamlegan og andlegan þroska.

byrjendur - frá fyrsta skrefi
Hestafimleikar henta þeim vel sem ekki hafa aðgang að hesti eða eru of ungir til að stunda reiðmennsku. Einnig geta allir, óháð hæfileikum eða getu, stundað þessa íþrótt. Á byrjendastigi er áherslan á að umgangast hestinn, byggja upp traust og læra að treysta bæði á hestinn og eigin getu. Iðkendur kynnast hreyfingum hestsins í öruggu umhverfi og njóta samveru með hestinum og öðrum. Á þessu stigi æfa þeir jafnvægi, sem er undirstaða reiðmennsku, og fá tækifæri til að læra rétta ásetu áður en farið er lengra.

Lengra komnir
Hestafimleikar henta einnig þeim sem vilja halda áfram að þróa hæfileika sína í greininni, en hafa ekki áhuga á eða getu til að stunda reiðmennsku sjálfstætt. Þetta geta t.d. verið unglingar sem ekki telja sig vera íþróttamenn eða eru ekki fullkomlega öruggir á hestbaki, en vilja þó njóta samverunnar við hestinn og vera öruggir undir stjórn þjálfara.

Sýninga- og keppnishópar
Þeir iðkendur, sem hafa mikinn áhuga og metnað, og vilja ganga lengra í að þróa hæfileika sína, geta fært sig yfir í "alvöru" hestafimleika. Erlendis eru víða hópar iðkenda þar sem markvissar æfingar ganga út á undirbúning fyrir keppnir. Á Íslandi er þetta enn á byrjunarstigi, þar sem framundir þetta hefur aðeins eitt hestamannafélag boðið upp á hestafimleikaæfingar. Stefnt er að því að breiða þessa íþrótt út um landið og bæta við henni við sem keppnisgrein hér á landi.
Þeir sem hafa mikinn áhuga á að æfa af alvöru, hafa hæfileika í fimleikum og vilja takast á við nýjar áskoranir, geta tekið þátt í þessum hópum og nýtt hestafimleika sem krefjandi, uppbyggjandi og markvissa íþróttagrein. Æfingarnar eru bæði líkamlega og andlega krefjandi og gefa þeim tækifæri sem vilja vinna sig upp í hæsta gæðaflokk í greininni.